Líkamstjón getur haft alvarlegar afleiðingar og kann að leiða til varanlegrar örorku sem skerðir getu tjónþola til að afla þeirra tekna sem annars hefði mátt ætla að hann hefði aflað sér og sínum til framfærslu. Dómstólar hafa vikið að því að mikilvægir hagsmunir felist í aflahæfi einstaklings og í því séu fólgin eignaréttindi sem njóti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Markmið með bótum fyrir varanlega örorku er að bæta tjónþola það tap á atvinnutekjum sem hann mun að líkindum verða fyrir í framtíðinni vegna afleiðinga líkamstjóns.
Áður en ráðist er í að ákvarða bætur fyrir tjónþola þarf bótagrundvöllur að liggja ljós fyrir, þ.e. hvort bótaskylda sé til staðar. Reglurnar um grundvöll skaðabótaábyrgðar eru almennt taldar vera fjórar: sakarreglan, reglan um hlutlæga ábyrgð, reglan um vinnuveitendaábyrgð og sakarlíkindareglan. Ljóst er að sýna verður fram á bótaskyldu hjá tjónvaldi áður ráðist er í að reikna út framtíðartjón tjónþola. Hafi tjónþola tekist að sýna fram á að bótaskylda sé til staðar vegna líkamstjóns er þó aðeins hálfur sigur unninn og þarf næst að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni og hvert sé umfang þess.
Í fyrsta lagi þarf að liggja fyrir mat á örorkustigi tjónþola þar sem annars vegar er metið hvaða atvinnumöguleika tjónþoli hefði átt ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni og hins vegar atvinnumöguleika tjónþola eftir að hann varð fyrir líkamstjóni. Í öðru lagi þarf að finna út margföldunarstuðul í samræmi við aldur tjónþola á þeim tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Í þriðja lagi þarf að ákveða hvaða árslaun skuli leggja til grundvallar útreikningi á fjártjóni tjónþola. Þessir þrír þættir þurfa að liggja fyrir svo unnt sé að reikna út heildartjón tjónþola vegna varanlegrar örorku.
Ef litið er til dómaframkvæmdar í skaðabótamálum síðustu ár má sjá að auk ágreinings um sök hefur útreikningur bóta vegna varanlegrar örorku verið þrætuepli í mörgum málum. Þess vegna er mikilvægt að skoða málsatvik í hverju máli gaumgæfilega áður en gengið er til uppgjörs bóta í líkamstjónamálum.