Algengar tryggingar

Reglur um bótarétt tjónþola hérlendis eru fjölbreytilegar og getur tjónþoli átt bótarétt úr ýmsum áttum þegar slys ber að höndum. Margir Íslendingar hafa t.d. gert samninga við vátryggingafélög, banka og greiðslukortafyrirtæki um tryggingu fyrir tjóni sem hlýst af völdum slysa í frítíma sem verða hérlendis og erlendis.

Algengt er að slíkir samningar séu hluti af svokölluðum heimilistryggingum en jafnframt eru samningarnir gjarnan gerðir samhliða samningum um greiðslukort. Margir eru tryggðir fyrir slysum í frítíma á báðum þessum vígstöðvum og má því segja að sumir hafi bæði komið sér upp belti og axlaböndum. Deila má um stílfræðilegt réttmæti slíks útbúnaðar í tengslum við val á fatakosti en þegar kemur að tryggingum vegna slysa er þó alveg ljóst að „bæði er betra“ enda er mögulegt að fá bætur úr fleiri en einni slysatryggingu vegna sama slyss ef um svokallaðar summutryggingar er að ræða.

Mikilvægt að bregðast fljótt við

Það er þó svo að margir tjónþolar átta sig ekki á því hvaðan þeir geta sótt bætur fyrir slys sín og er því mikilvægt að kynna sér réttindi sín vel svo þau nýtist þegar á hólminn er komið. Auk þess er tjónþolum markaður ákveðinn tími til þess að tilkynna um slys og því æskilegt að hafa hraðar hendur í þessum efnum þegar slys ber að höndum.

Í lögum um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 er kveðið á um frest tjónþola til þess að tilkynna tryggingafélagi um tjón í vissum tilvikum. Þannig kemur fram í lögunum að tjónþoli skuli gera skuli kröfu um bætur til vátryggingafélags innan árs frá því að „hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á“.

Ef skylda til tilkynningar er ekki uppfyllt í tæka tíð getur bótaréttur tjónþola fallið niður.

Ekki leggja árar í bát ef neitun fæst frá tryggingafélagi

Deilt hefur verið um túlkun ákvæðisins og upphafsmark umrædds frests. Hefur borið á því að tryggingafélög túlki ákvæðið með öðrum hætti en tjónþolar og hafni bótaskyldu sinni á grundvelli þess. Hafa niðurstöður úrskurðarnefnda og dómstóla leitt í ljós að túlkun vátryggingafélaga er ekki óskeikul. Finna má nýleg dæmi þess í framkvæmd að ákvörðunum vátryggingafélaga hefur verið snúið við af Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og dómstólum.

Það er því engin ástæða fyrir tjónþola til þess að leggja árar í bát ef niðurstaða tryggingafélaga er á þá leið að tilkynningarfrestur sé liðinn vegna slysa heldur leita álits óháðra sérfræðinga.

Þess skal getið að ofangreind regla gildir ekki í öllum tilfellum þegar slys ber að höndum og kann frestur til tilkynningar að vera rýmri en eitt ár. Þó er ávallt mikilvægt að tryggja sönnun á atvikum máls, t.d. þegar umferðar- eða vinnuslys verða.