Í september 2022 úrskurðaði úrskurðarnefnd í vátryggingamálum í máli umbjóðanda Óhapps slysa- og bótamála í ágreiningi við vátryggingafélag um bótaskyldu vegna líkamstjóns.

Helstu málavextir voru þeir að umbjóðandi stofunnar hafði verið að versla í stórverslun á Íslandi sem selur matvörur og keypti hann jafnframt tvo innkaupapoka undir vörurnar. Um var að ræða bréfpoka sem verslunin seldi viðskiptavinum sínum undir vörur. Á leiðinni út úr versluninni rifnaði annar innkaupapokinn og vörurnar féllu úr pokanum og fyrir fætur umbjóðanda stofunnar þeim afleiðingum að hann datt um vörurnar. Við fallið handleggsbrotnaði umbjóðandi stofunnar illa á báðum höndum og skall með höfuðið í kantstein á bílaplaninu fyrir utan verslunina.

Vátryggingafélagið sem tryggði verslunina hafnaði bótaskyldu í málinu meðal annars með vísan til þess að ósannað væri að innkaupapokarnir væru gallaðir í skilningi laga og að umbjóðandi stofunnar bæri sjálfur ábyrgð á tjóninu þar sem hann hefði að öllum líkindum hlaðið of mikið af vörum í innkaupapokann. Kom fram í málflutningi tryggingafélagsins að innkaupapokinn ætti að þola hið minnsta 10 kg þyngd.  

Lögmenn stofunnar öfluðu vitnisburðar frá vitnum af vettvangi, auk þess sem þeir létu framkvæmda óháða mælingu hjá opinberum mælingaraðila á þyngd varanna sem voru í innkaupapokunum samkvæmt kassakvittun frá versluninni. Niðurstaða mælingunnar var sú að samanlögð þyngd varanna í báðum innkaupapokunum væri um 14 kg.

Í úrskurði úrskurðarnefndar í vátryggingamálum þótti því sannað að tjónþoli hefði ekki hlaðið meira en 10 kg. í pokann sem rifnaði. Þannig þótti með ólíkindum að umbjóðandi stofunnar hefði hlaðið pokana með svo ójafnri þyngdardreifingu að meira en 10 kg. hefðu verið í öðrum innkaupapokanum. Var innkaupapokinn því álitinn gallaður í skilningi laga og að hann hentaði ekki til þeirrar notkunar sem honum var ætlað. Voru þannig talin bein orsakatengsl milli gallans á pokanum og tjóns umbjóðanda stofunnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um skaðsemisábyrgð og full bótaskylda því viðurkennd úr tryggingu stórverslunarinnar. Vátryggingafélagið ákvað að una úrskurðinum og greiddi umbjóðanda Óhapps því fullar skaðabætur í málinu.

Arnar Ingi Ingvarsson lögmaður og eigandi Óhapps slysa- og bótamála flutti málið fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.

ÓHAPP slysa- og bótamál hvetja alla þá sem hafa slasast til að hafa samband við lögmenn okkar og kanna rétt sinn til slysabóta sér að kostnaðarlausu. Sími 595-4545 eða ohapp@ohapp.is