Bótaréttur til staðar þó bílbelti hafi ekki verið notuð

Þó að það sé ótvírætt öruggara fyrir ökumenn og farþega að nota bílbelti í bifreiðum er ekki þar með sagt að bótaréttur vegna slysa falli sjálfkrafa niður ef bílbelti eru ekki notuð. Í umferðarlögum er kveðið á um að heimilt sé að lækka eða fella niður bætur fyrir líkamstjón ef sá sem varð fyrir tjóni var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Á það hefur reynt fyrir dómstólum hvort það að nota ekki bílbelti teljist eitt og sér stórkostlegt gáleysi í þessu samhengi og réttlæti skerðingu bóta.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 31/2014 voru málsatvik með þeim hætti að tjónþoli notaði ekki bílbelti og lá ofan á öðrum farþegum í aftursæti bifreiðar þegar bifreiðin lenti í árekstri með þeim afleiðingum að tjónþoli slasaðist. Vátryggingafélagið sem bar ábyrgð á líkamstjóni tjónþolans taldi að tjónþoli hefði með þessu háttalagi gerst sekur um stórkostlegt gáleysi þannig að það réttlætti skerðingu bóta.

Niðurstaða dómsins var sú að túlka yrði umferðarlögin með þeim hætti að löggjafinn hafi talið að það eitt yrði ekki metið til stórfellds gáleysis að nota ekki bílbelti. Því væru ekki efni til að skerða bætur til tjónþolans.

Í þessu felst að bótaréttur verður ekki skertur vegna þess eins að nota ekki bílbelti. Tjónþolar sem ekki hafa notað bílbelti og lent í slysi ættu því hiklaust að sækja rétt sinn.