Skjólstæðingur fær fullar slysabætur vegna gallaðra innkaupapoka í verslun
Í september 2022 úrskurðaði úrskurðarnefnd í vátryggingamálum í máli umbjóðanda Óhapps slysa- og bótamála í ágreiningi við vátryggingafélag um bótaskyldu vegna líkamstjóns.
Helstu málavextir voru þeir að umbjóðandi stofunnar hafði verið að versla í stórverslun á Íslandi sem selur matvörur og keypti hann jafnframt tvo innkaupapoka undir vörurnar. Um var að ræða bréfpoka sem verslunin seldi viðskiptavinum sínum undir vörur. Á leiðinni út úr versluninni rifnaði annar innkaupapokinn og vörurnar féllu úr pokanum og fyrir fætur umbjóðanda stofunnar þeim afleiðingum að hann datt um vörurnar. Við fallið handleggsbrotnaði umbjóðandi stofunnar illa á báðum höndum og skall með höfuðið í kantstein á bílaplaninu fyrir utan verslunina.
Vátryggingafélagið sem tryggði verslunina hafnaði bótaskyldu í málinu meðal annars með vísan til þess að ósannað væri að innkaupapokarnir væru gallaðir í skilningi laga og að umbjóðandi stofunnar bæri sjálfur ábyrgð á tjóninu þar sem hann hefði að öllum líkindum hlaðið of mikið af vörum í innkaupapokann. Kom fram í málflutningi tryggingafélagsins að innkaupapokinn ætti að þola hið minnsta 10 kg þyngd.
Lögmenn stofunnar öfluðu vitnisburðar frá vitnum af vettvangi, auk þess sem þeir létu framkvæmda óháða mælingu hjá opinberum mælingaraðila á þyngd varanna sem voru í innkaupapokunum samkvæmt kassakvittun frá versluninni. Niðurstaða mælingunnar var sú að samanlögð þyngd varanna í báðum innkaupapokunum væri um 14 kg.
Í úrskurði úrskurðarnefndar í vátryggingamálum þótti því sannað að tjónþoli hefði ekki hlaðið meira en 10 kg. í pokann sem rifnaði. Þannig þótti með ólíkindum að umbjóðandi stofunnar hefði hlaðið pokana með svo ójafnri þyngdardreifingu að meira en 10 kg. hefðu verið í öðrum innkaupapokanum. Var innkaupapokinn því álitinn gallaður í skilningi laga og að hann hentaði ekki til þeirrar notkunar sem honum var ætlað. Voru þannig talin bein orsakatengsl milli gallans á pokanum og tjóns umbjóðanda stofunnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um skaðsemisábyrgð og full bótaskylda því viðurkennd úr tryggingu stórverslunarinnar. Vátryggingafélagið ákvað að una úrskurðinum og greiddi umbjóðanda Óhapps því fullar skaðabætur í málinu.
Arnar Ingi Ingvarsson lögmaður og eigandi Óhapps slysa- og bótamála flutti málið fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.
ÓHAPP slysa- og bótamál hvetja alla þá sem hafa slasast til að hafa samband við lögmenn okkar og kanna rétt sinn til slysabóta sér að kostnaðarlausu. Sími 595-4545 eða ohapp@ohapp.is
Slys við notkun rafmagnshlaupahjóla eða rafskúta
Færst hefur í aukana að einstaklingar notist við rafmagnshlaupahjól eða rafskútur til að ferðast á milli staða. Á sama tíma hefur óhöppum og slysum vegna notkunar á hlaupahjólum fjölgað í takt.
Vakna þá gjarnan spurningar um bótarétt þeirra einstaklinga sem slasast við notkun rafmagnshlaupahjóla. Að öllum líkindum er bótaréttur til staðar. Ef um er að ræða árekstur við bifreið eða annað skráningarskylt ökutæki er að öllum líkindum réttur til bóta úr lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækisins. Skiptir þá ekki máli hvort ökumaður hlaupahjólsins hafi verið í rétti eða órétti.
Hins vegar ef um er að ræða óhapp eða slys þar sem ökumaður hlaupahjólsins fellur af því og slasast, án þess að um sé að ræða árekstur við annað ökutæki, kann að vera til staðar bótaréttur úr almennri slysatryggingu eða úr frítímaslysatryggingu í heimilistryggingu sem viðkomandi kann að hafa hjá sínu tryggingarfélagi.
ÓHAPP slysa- og bótamál hvetja alla þá sem hafa slasast við notkun á rafmagnshlaupahjólum eða rafskútum til að hafa samband við lögmenn okkar og kanna rétt sinn sér að kostnaðarlausu. Sími 595-4545 eða ohapp@ohapp.is
Lentir þú í slysi og ert óviss með framhaldið?
Hjá einstaklingum sem lenda í slysum og óhöppum tekur oft á tíðum við mikil óvissa. Þannig geta slys og óhöpp valdið miklum líkamlegum einkennum og verkjum. Einstaklingur getur verið frá vinnu eftir slys eða átt í erfiðleikum með að sinna starfi sínu með góðu móti. Líkamleg og fjárhagsleg málefni geta því blandast saman og valdið mikilli óvissu og kvíða.
Einstaklingur sem lendir í slysi þarf því bæði að standa í því á sama tíma að ná líkamlegum bata og finna útúr því hvaða bótarétt hann á. Að standa í þessu tvennu á sama tíma getur verið flókið og streituvaldandi. Þessi óvissa getur því gert illt verra.
Mjög mikilvægt er að leita strax til læknis eftir slys. Það er ekki síður mikilvægt að leita til lögmanns til að fá upplýsingar um réttindi sín og hvaða atriði sé mikilvægt að hafa í huga eftir slys. Hlutverk lögmanns er að útskýra á einfaldan hátt hvaða bótarétt viðkomandi á og hvernig ferlið virkar. Lögmaðurinn tekur svo við keflinu varðandi það að tryggja þann rétt til fulls og sér um öll samskipti fyrir þína hönd. Með því er þungu fargi létt af einstaklingum og geta þeir einbeitt sér að því að ná bata.
Mikilvægt er að sá lögmaður sem leitað er til sé vel að sér í líkamstjónarétti og þekki vel til á réttarsviðinu. Þá er gríðarlega mikilvægt að lögmaður þinn sé vel inni í þínu máli á öllum stigum, sé í reglulegu sambandi við þig í gegnum allt ferlið. Milliliðalaus aðgangur að þínum lögmanni og regluleg samskipti geta ráðið úrslitum við útkomu á því hvort bótaréttur sé tryggður sem og hver endanleg fjárhæð bóta verður þegar bætur eru gerðar upp í lok máls. Ýmsir þættir geta þannig haft áhrif á niðurstöðu máls og geta rétt handbrögð lögmanns skipt sköpum. Með öðrum orðum gildir það í þessu sem öðru að vel unnið verk frá upphafi skilar af sér betri niðurstöðu og þar með möguleika á hærri bótum.
Hjá Óhappi slysa- og bótamálum sinnir lögmaður þinn málinu á öllum stigum og leitast lögmenn okkar eftir því að vera í reglulegu og góðu sambandi við þig í gegnum allt ferlið. Við viljum heyra í þér sem oftast og leggjum okkar alla fram við að hjálpa þér.
Hafðu samband við okkur hér, í síma 595-4545 eða í gegnum heimasíðuna www.ohapp.is.
Skjólstæðingi Óhapps dæmdar bætur í „gaskútsmáli“
Þann 6. október 2017 dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur íslenska ríkið til þess að greiða skjólstæðingi Óhapps slysa- og bótamála bætur eftir að hún fékk gaskút í höfuðið, þar sem hún lá sofandi í tjaldi sínu. Hlaut hún mikla höfuðáverka við óhappið.
Dómurinn felldi úrskurð bótanefndar vegna þolenda afbrota úr gildi, en nefndin hafði hafnað kröfu konunnar um bætur með þeim rökum að of mikil óvissa væri uppi í málinu um hvernig konan hefði hlotið áverkana. Í dómsmálinu var því einkum deilt um hvort sannað þætti að áverkarnir hefðu hlotist af því að gaskúti var kastað á tjaldið.
Niðurstaða dómsins var á þá leið að sannað þótti að konan hefði fengið gaskútinn í höfuðið og því ætti hún því rétt á bótum úr bótasjóði vegna þolenda afbrota, enda hafi verið um að ræða tjón sem hlaust vegna refsiverðs verknaðar óþekkts geranda.
Umfjöllun Ríkisútvarpsins um málið má finna með því að smella hér og dóminn sjálfan má nálgast með því að smella hér.
Fyrir tjónþola flutti Ívar Þór Jóhannsson héraðsdómslögmaður og einn eiganda Óhapps slysa- og bótamála.
Óhapp slysa- og bótamál hvetja alla sem lent hafa í slysum og/eða líkamsárásum að leita ráðgjafar hjá lögmönnum fyrirtækisins. Hafa má samband í síma 595-4545 eða í gegnum heimasíðuna www.ohapp.is.
Bílbelti og bótaréttur
Bótaréttur til staðar þó bílbelti hafi ekki verið notuð
Þó að það sé ótvírætt öruggara fyrir ökumenn og farþega að nota bílbelti í bifreiðum er ekki þar með sagt að bótaréttur vegna slysa falli sjálfkrafa niður ef bílbelti eru ekki notuð. Í umferðarlögum er kveðið á um að heimilt sé að lækka eða fella niður bætur fyrir líkamstjón ef sá sem varð fyrir tjóni var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Á það hefur reynt fyrir dómstólum hvort það að nota ekki bílbelti teljist eitt og sér stórkostlegt gáleysi í þessu samhengi og réttlæti skerðingu bóta.
Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 31/2014 voru málsatvik með þeim hætti að tjónþoli notaði ekki bílbelti og lá ofan á öðrum farþegum í aftursæti bifreiðar þegar bifreiðin lenti í árekstri með þeim afleiðingum að tjónþoli slasaðist. Vátryggingafélagið sem bar ábyrgð á líkamstjóni tjónþolans taldi að tjónþoli hefði með þessu háttalagi gerst sekur um stórkostlegt gáleysi þannig að það réttlætti skerðingu bóta.
Niðurstaða dómsins var sú að túlka yrði umferðarlögin með þeim hætti að löggjafinn hafi talið að það eitt yrði ekki metið til stórfellds gáleysis að nota ekki bílbelti. Því væru ekki efni til að skerða bætur til tjónþolans.
Í þessu felst að bótaréttur verður ekki skertur vegna þess eins að nota ekki bílbelti. Tjónþolar sem ekki hafa notað bílbelti og lent í slysi ættu því hiklaust að sækja rétt sinn.
Um tilkynningar þegar slys ber að höndum
Algengar tryggingar
Reglur um bótarétt tjónþola hérlendis eru fjölbreytilegar og getur tjónþoli átt bótarétt úr ýmsum áttum þegar slys ber að höndum. Margir Íslendingar hafa t.d. gert samninga við vátryggingafélög, banka og greiðslukortafyrirtæki um tryggingu fyrir tjóni sem hlýst af völdum slysa í frítíma sem verða hérlendis og erlendis.
Algengt er að slíkir samningar séu hluti af svokölluðum heimilistryggingum en jafnframt eru samningarnir gjarnan gerðir samhliða samningum um greiðslukort. Margir eru tryggðir fyrir slysum í frítíma á báðum þessum vígstöðvum og má því segja að sumir hafi bæði komið sér upp belti og axlaböndum. Deila má um stílfræðilegt réttmæti slíks útbúnaðar í tengslum við val á fatakosti en þegar kemur að tryggingum vegna slysa er þó alveg ljóst að „bæði er betra“ enda er mögulegt að fá bætur úr fleiri en einni slysatryggingu vegna sama slyss ef um svokallaðar summutryggingar er að ræða.
Mikilvægt að bregðast fljótt við
Það er þó svo að margir tjónþolar átta sig ekki á því hvaðan þeir geta sótt bætur fyrir slys sín og er því mikilvægt að kynna sér réttindi sín vel svo þau nýtist þegar á hólminn er komið. Auk þess er tjónþolum markaður ákveðinn tími til þess að tilkynna um slys og því æskilegt að hafa hraðar hendur í þessum efnum þegar slys ber að höndum.
Í lögum um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 er kveðið á um frest tjónþola til þess að tilkynna tryggingafélagi um tjón í vissum tilvikum. Þannig kemur fram í lögunum að tjónþoli skuli gera skuli kröfu um bætur til vátryggingafélags innan árs frá því að „hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á“.
Ef skylda til tilkynningar er ekki uppfyllt í tæka tíð getur bótaréttur tjónþola fallið niður.
Ekki leggja árar í bát ef neitun fæst frá tryggingafélagi
Deilt hefur verið um túlkun ákvæðisins og upphafsmark umrædds frests. Hefur borið á því að tryggingafélög túlki ákvæðið með öðrum hætti en tjónþolar og hafni bótaskyldu sinni á grundvelli þess. Hafa niðurstöður úrskurðarnefnda og dómstóla leitt í ljós að túlkun vátryggingafélaga er ekki óskeikul. Finna má nýleg dæmi þess í framkvæmd að ákvörðunum vátryggingafélaga hefur verið snúið við af Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og dómstólum.
Það er því engin ástæða fyrir tjónþola til þess að leggja árar í bát ef niðurstaða tryggingafélaga er á þá leið að tilkynningarfrestur sé liðinn vegna slysa heldur leita álits óháðra sérfræðinga.
Þess skal getið að ofangreind regla gildir ekki í öllum tilfellum þegar slys ber að höndum og kann frestur til tilkynningar að vera rýmri en eitt ár. Þó er ávallt mikilvægt að tryggja sönnun á atvikum máls, t.d. þegar umferðar- eða vinnuslys verða.
Markmið og útreikningur bóta vegna líkamstjóns
Líkamstjón getur haft alvarlegar afleiðingar og kann að leiða til varanlegrar örorku sem skerðir getu tjónþola til að afla þeirra tekna sem annars hefði mátt ætla að hann hefði aflað sér og sínum til framfærslu. Dómstólar hafa vikið að því að mikilvægir hagsmunir felist í aflahæfi einstaklings og í því séu fólgin eignaréttindi sem njóti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Markmið með bótum fyrir varanlega örorku er að bæta tjónþola það tap á atvinnutekjum sem hann mun að líkindum verða fyrir í framtíðinni vegna afleiðinga líkamstjóns.
Áður en ráðist er í að ákvarða bætur fyrir tjónþola þarf bótagrundvöllur að liggja ljós fyrir, þ.e. hvort bótaskylda sé til staðar. Reglurnar um grundvöll skaðabótaábyrgðar eru almennt taldar vera fjórar: sakarreglan, reglan um hlutlæga ábyrgð, reglan um vinnuveitendaábyrgð og sakarlíkindareglan. Ljóst er að sýna verður fram á bótaskyldu hjá tjónvaldi áður ráðist er í að reikna út framtíðartjón tjónþola. Hafi tjónþola tekist að sýna fram á að bótaskylda sé til staðar vegna líkamstjóns er þó aðeins hálfur sigur unninn og þarf næst að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni og hvert sé umfang þess.
Í fyrsta lagi þarf að liggja fyrir mat á örorkustigi tjónþola þar sem annars vegar er metið hvaða atvinnumöguleika tjónþoli hefði átt ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni og hins vegar atvinnumöguleika tjónþola eftir að hann varð fyrir líkamstjóni. Í öðru lagi þarf að finna út margföldunarstuðul í samræmi við aldur tjónþola á þeim tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Í þriðja lagi þarf að ákveða hvaða árslaun skuli leggja til grundvallar útreikningi á fjártjóni tjónþola. Þessir þrír þættir þurfa að liggja fyrir svo unnt sé að reikna út heildartjón tjónþola vegna varanlegrar örorku.
Ef litið er til dómaframkvæmdar í skaðabótamálum síðustu ár má sjá að auk ágreinings um sök hefur útreikningur bóta vegna varanlegrar örorku verið þrætuepli í mörgum málum. Þess vegna er mikilvægt að skoða málsatvik í hverju máli gaumgæfilega áður en gengið er til uppgjörs bóta í líkamstjónamálum.